fimmtudagur, 30. apríl 2009

Kvikmyndagerð MR 2008 - 2009

jæja þá þarf maður að taka saman þetta blessaða kvikmyndargerðar ár hjá manni.

Þegar ég skráði mig í kvikmyndagerð þá gerði ég það því ég hef ávallt haft gaman af kvikmyndagerð. Ég bjóst við því að læra mikið um það hvernig best væri að gera myndir og fá svo að reina á þessa nýfundnu tækni.
Ég fékk þannig nokkurn vegin það sem ég vildi út úr þessu námskeiði. Hinsvegar þá bjóst ég við meira af verklegum æfingum. Ég bjóst við því að við fengjum að taka myndavél í hönd og taka upp oftar. Það sem ég hugsa að ég hafi ekki gert mer grein fyrir er að það var aðeins ein myndavél og yfirleitt um fimm eða fleiri hópar. Þetta skapar að sjálfsögðu vandamál. Því held ég að við höfum fengið eins mikið verklegt og er mögulegt miðað við eina vél og stærð á hóp.
Ég tel að það sem hafi reynst mér best, og verið skemmtilegast, var að fara út að taka upp. Að reyna á það sem Siggi Palli var búinn að predika yfir okkur og sjá hvernig það reyndist hvort þetta var bara bölvuð vitleysa eða hvort þetta var í raun heilagur sannleiki sem ber að fylgja. Ég komst að þeirri niður stöðu að ekki þarf að fylgja öllu en svona flest öllu.

Það sem mér fannst einnig mjög jákvætt voru þeir hlutir sem ég prófaði í fyrsta skipti á þessu námskeiði. Eins og til dæmis RIFF og shorts and docs. Ég hafði aldrei farið á kvikmynda hátíð áður og var þetta mjög skemmtileg reynsla. Þökk sé því að hafa þurft að fara á þessar hátíðir mun ég ábyggilega gera það aftur á næsta ári og væntanlega árið eftir það. Á þessum sýningum sá ég mikið af myndum sem ég hefði annars aldrei séð og er ég ævinlega þakklátur fyrir það.
Hinsvegar eru margar af myndunum sem við horfðum á í föstudags tímunum allt annað mál. Jú þarna voru margar góðar myndir eins og Chinatown og Notorius en þarna voru einnig nokkrar ekki svo góðar eins og sænska myndin um kreppuna og Hold Up Down. En maður verður víst að sjá lélegar myndir til þess að geta metið þær góðu betur.

Mér fannst nemendafyrirlestrarnir mjög fróðlegir og mjög gaman að vinna þá. Einnig var ekki síðra að hlusta á þá. Það var mjög gaman að kynnast nýjum leikstjórum og nýjum stefnum.

Í heildina litið þá fannst mér þetta bara mjög skemmtilegt fag. ÉG hefði viljað eiða fleiri tímum í það en maður er víst í fullt af öðrum fögum líka sem þarf að stunda. Ég vil bara þakka Sigga Palla fyrir flott og áhugavert námskeið. Takk.

Happy-Go-Lucky


Ég ákvað að gera mér glaðan dag og leigja mér spólu. Í þetta skiptið var Happy-Go-Lucky fyrir valinu. Í þessari mynd leika engir stórleikarar en í leikenda hópnum eru Sally Hawkins, Alexis Zegerman og Alexis Zegerman. En Mike Leigh bæði leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni. Hann hefur gert myndir á borð við Vera Drake og Secrets & Lies en þær voru báðar tilnefndar til óskars fyrir handrit og leikstjórn.

Happy go lucky er ein furðulegasta mynd sem ég hef á æfi minni séð. Hún fjallaði um einhleypa konu sem bjó í þröngri og litskrúðugri íbúð í listamanna hverfi í London. Hún starfaði sem barnaskólakennari þar sem hún lifði sig inní leiki barnanna. Í frítíma sínum datt hún í það og stundaði ýmis furðuleg námskeið eins og kennslu í trampólíni og flamingó dansi. Hún elskaði lífið, elskaði alla í kringum sig og elskaði hamingjuna. Í tilefni af þrítugsafmæli sínu ákvað hún að fá sér bílpróf. Ökukennari hennar reyndist vera andstæða hennar, hann hataði alla og lífið sjálft. Hún var bjartsýn um að geta bjargað lífi hans, koma honum auga á ljósið í enda ganganna, eins og hún átti svo auðvelt með að gera fyrir annað fólk í kringum sig.

Myndin spannar yfir ákveðið tímabil í lífið Poppy (Sally Hawkins) og sýnir áhorfendum mismunandi týpur og lífshamingju fólks. Sally Hawkins fer á kostum í þessu hlutverki. Maður sér að hún er alltaf glöð þó svo að tárin fylla augun hennar. Hún er endalaust hamingjusöm þó svo að maður veit hvað hún hefur gengið í gegnum margt sárt í gegnum lífsleiðina. Hún tekur öðruvísi á vandamálum heldur en við hin, hvort það sé réttara eður ei.


Umhverfið í myndinni er litskrúðugt og skemmtilegt og spannar aðalpersónu myndarinnar, Poppy. Campten hverfið í London er einstaklega skemmtilegt og svolítið öðruvísi frá hefðbundnum íbúðarhverfum í Bretlandi. Þrátt fyrir það birtist fyrir manni hefðbundna pöbba-lífið og múrsteinshúsin.

Myndatakan var ekkert sérstök, hvorki óhefðbundin né eitthvað sérstaklega flott. Hún var tiltörulega hefðbundin.

Myndin var tilnefnd til Óskarsveðlaunanna fyrir besta handrit. Mér fannst hún ekki eiga það sérstaklega skilið þar sem hún er ekki í sama flokki og Good Will Hunting, Pulp Fiction eða Chinatown sem hafa unnið til þeirra verðlauna.

Þrátt fyrir furðuleikan hélt myndin manni við efnið. Þegar myndin var búin sat maður eftir í sófanum með tóma poppskál og ótal furðulegra spurninga.

Hér er trailerinn fyrir þessa myndi.