þriðjudagur, 31. mars 2009

Knowing (Spoiler)


Ég fór að sjá nýjustu mynd Nicolas Cage, Knowing. Auk hans leikur Rose Byrne stórt hlutverk í myndinni. Myndinni er leikstýrt af Alex Proyas en hann hefur leikstýrt myndum á borð við The Crow (1994), Dark City (1998) og I, Robot (2004). Hann gerir ekki margar myndir en þær sem hann tekur sér fyrir hendi eru margt góðar myndir. Þær eru flestar svolítið spes eða alla veganna þær sem ég hef séð, en það eru myndirnar sem ég taldi upp hérna áðan.

Knowing er mynd um mann John Koestler (Nicolas Cage) sem á kemst yfir bréf sem skrifað var fyrir 50 árum. Þetta bréf var sett í tímahylki þegar skóli sonar hans, Caleb Koestler (Chandler Canterbury), var stofnaður. Caleb fær bréfið í hendurnar og John kemst yfir það. Á þessu bréfi eru runur af tölustöfum og fyrir tilviljun kemst John að því að þessir tölustafir tákna dagsetningu stórslys og fjölda þeirra sem deyja í slysinu. Hann fer í gegnum allan listann og kemst að því að hann skráir öll stórslys síðustu 50 ára og að það séu þrír atburðir sem eiga eftir að gerast. Hann er ekki 100% viss á þessu svo hann ákveður að reyna að sjá hvort næsta slys gerist. Á daginn sem slysið á að gerast er hann staddur á þjóðveg og verður vitni að flugslysi þar sem akkúrat fjöldi fólks lést í og stóð á blaðinu. Þar kemst hann einnig að því að þar eru fleiri tölur sem tákna staðsetningu slysanna. John finnur það út að stúlkan sem skrifaði tölurnar er látin en hún á dóttur, Diana Wayland (Rose Byrne), sem John finnur. Þau komast að því að hvíslararnir hafa verið að tala við börnin þeirra og að þeir séu að bjóða þeim leið út. Þau komast einnig að því að heimsendir sé í nánd. John kemst að því hvar best sé að vera þegar heimsendir skellur á en Caleb og dóttur Diana, Abby (Lara Robinson), var rænt af hvíslurunum. John fer á staðinn þar sem hann grunaði son sinn vera. Þar finnur hann strákinn sinn og Abby en þau eru með Hvíslurunum. Við komust að því að hvíslararnir eru í raun geimverur sem hafa komið til þess að sækja þá útvöldu en það eru Caleb og Abby. Þau fara með geimverunum út í geim. Það fara önnur geimskip í loftið allsstaðar um plánetuna. Heimsendir skellur á allir deyja nema þeir útvöldu. Þeim hefur verið komið fyrir á nýrri plánetu sem er mjög gróður sæl og tilbúinn innflutnings.

Ég fór á þessa mynd með engar væntingar. Mig grunaði að þetta væri bara ein önnur vitleysan. Þessi mynd var ekki eins mikil vitleysa og ég hafði búist við. Hún var bara nokkuð góð. Maður var spenntur allan tímann og nagaði neglurnar yfir nokkrum atriðunum. Þó var margt sem var ekki laust við alla vitleysu. Þessi mynd byggði voðalega mikið á tilviljunum. Sonur Johns sem var hin útvaldi fékk þetta bréf. Sem leiddi það af sér að fyrir tilviljun þá fattar John kóðann. Hins vegar er Alex Proyas leikstjórinn og hann er ekki beint hefðbundinn. Söguþráðurinn var nokkuð trúanlegur ef ekki hefði verið fyrir allar tilviljanirnar. Hann heldur manni vel við efnið en þessi endir. Geimverur sem eru að hjálpa mannkyninu að komast undan útdauða. Þegar geimverurnar eru að fara frá jörðinni fá þær á sig einhverja "vængi" þetta voru ekki eiginlegir vængir aðeins útlínur vængja. Það var því greinilegt að þessar geimverur áttu að vera það sem mennirnir höfðu ávalt talið engla. Nýi heimurinn sem krökkunum er komið í minnir óstjórnlega á Eden garðinn. Þetta er því greinilegt nýtt upphaf góðrar framtíðar.

Tæknibrellurnar í þessari mynd voru frábærar þetta var með flottari myndum sem ég hef séð. Flugslys, lestaslis og heimsendir þetta var allt saman gert alveg fáránlega vel. Manni fannst maður vera á staðnum þegar flugvélin hrapaði. Ég verð að segja að ég hef sjaldan séð jafn flott gerða mynd. Myndatakan var einnig alveg frábær og var greinilega hvert skot pælt í þaular.

Ég mæli eindregið með þessari mynd jafnvel þó að það væri ekki nema til þess að sjá hin epísku atriði í myndinni. Eins og ég sagði áðan þá þynnist söguþráðurinn þegar dregur á endann og mætti hún enda á einhvern annan hátt. Geimverur eru eitthvað svo klisjukenndar. Annars var þetta mjög góð mynd. Hún fær sjö af tíu á IMDB.com.

Hér er Trailerinn:

Batman (1989)



Ég fór að rifja upp góða daga um daginn og horfði á gömlu Batman myndina. Þetta er fyrsta Batman myndin eftir að hún hafði verið gefin út 1966. Þessi mynd prýðir hóp afbragðs leikara eins og Michael Keaton, Jack Nicholson og Kim Basinger. Tim burton leikstýrir myndinni en hann hefur gert fjöldann allan af góðum myndum eins og Beetle Juice, Edward Scissorhands og Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street. Tim Burton hefur verið þekktur að gefa myndum sínum ákveðið "look". Hálfgert teiknimynda "look" og vantar það ekki í Batman.

Batman er um mann, Bruce Wayne (Michael Keaton), sem klæðir sig upp sem leðurblöku og verndar Gotham frá glæpamönnum. Þegar hér er komið við sögu þá neitar lögreglan um tilvist hans. Það verður samt fljótt almanna vitund að hann sé til. Bruce kynnist konu, Vicki Vale (Kim Basinger), hann myndar fljótt tilfinningaleg tengsl við hana. Þegar Batman er að berjast á móti glæpum eitt skiptið þá á hann í því óhappi að ná ekki að bjarga Jack Napier (Jack Nicholson), sem er hægri hönd glæpaforingja í Gotham, að falla ofan í sýru pitt. Við það fall umbreytist hann í Jókerinn. Jókerinn nær að taka yfir starfsemi fyrrum yfirmanns síns með því að drepa hann og fylgi menn hans. Jókerinn fær sama áhuga og Bruce á Viki þegar hann sér mynd af henni, þetta mun valda nokkrum usla. Þegar viki fer að skoða fortíð Bruce kemst hún að því að foreldrar hans voru myrt fyrir framan hann þegar hann var aðeins barn. Jókerinn hefur komið á markaðinn eitur efni sem fær fólk til þess að bókstaflega að deyja úr hlátri. Hann hefur falið vöruna sína í snyrtivörum og fleiru. Hann verður nærgengari Viki og segir henni frá ástúð sinni á henni og að hann vilji vera með henni. Viki líkar það ekki og reynir að flýja þá kemur Batman og bjargar deginum. Bruce og Viki verða nánari og ætlar Bruce að segja henni allt, það er að hann sé Batman. Þau verða fyrir truflun en það er Jókerinn. Hann gerir engum mein en hann segir svolítið "Tell me something, my friend. You ever dance with the devil in the pale moonlight?" en það sagði einmitt morðingi foreldra hans svo jókerinn drap foreldra Bruce. 200 ára afmæli Gotham er að koma og Jókerinn hefur sagst ætla að gefa fólkinu í borginni fullt af peningum. Hann skorar einnig á Batman að koma á hátíðina og mæta sér. Í örfáum orðum þá sigrar Batman Jókerinn í skemmtilegum bardaga upp í kirkju turn.


Þessi mynd var og er æðisleg mynd og var að mínu mati besta Batman myndin þangað til Batman Begins kom út árið 2005 og svo var hún toppuð með The Dark Knight sem kom út 2008. En nóg um þær ég ætla að ræða Batman frá 1989 fæðingar árinu mínu. Ég hef alltaf haft gaman að því að horfa á Batman alveg frá því að vera lítill polli og alveg til dagsins í dag. Skilningur manns á myndinni breytist bara með árunum. Sem krakki er það ofur hetjan sem bjargar öllu sem heillar mann. Núna er það ekki alveg svo einfalt. Þessi mynd hefur bara eitthvað skemmtana gildi frábær leikur frábærra leikara.

Ég veit ekki hvort það var óvart eða bara vegna tækninnar sem var þegar þessi mynd var gerð eða hvort það var þaulhugsað en það eru nokkur atriði í myndinni sem eru greinilega tölvugerð. Atriði sem ég held að þurfi ekki að vera tölvu gerð eins og kastarar að lýsa upp í loftið. Þannig að ég held að þetta hafi verið ákveðið af Tim Burton til þess að gefa myndinni svolítið teiknimyndasögu look. Það eru fleiri atriði svona eins og þegar Batman sést stundum í fjarska. Allt gert fyrir hinn dygga aðdáenda Batman held ég. Ég gæti auðvitað haft rangt fyrir mér og þetta var bara gert af nauðsyn en ég vil ekki trúa því.

Myndin er frábærlega skrifuð og það hvernig Batman er kynntur fyrst til sögunnar það er hreint út sagt frábært. Ég held að það hafi verið ætlað fyrir harða Batman aðdáendur. Þeir hafi átt að halda að þarna væri Bruce með mömmu sinni og pabba á leið í opinn dauðan. En það gerist ekki og þau sleppa, stuttu síðar kemur Batman til sögunnar mjög drungalegur og hræðir líftóruna úr þeim glæpamönnum sem á hans vegi verða. Einnig það tvist að Jack Napier eða Jókerinn skyldi hafa drepið foreldra Bruce. Mér fannst alltaf skemmtileg þetta Quote sem er úr seinast bardaga þeirra Batman og Joker

Fyrst
Batman: I'm going to kill you!
The Joker: You IDIOT! You made me. Remember? You dropped me into that vat of chemicals. That wasn't easy to get over, and don't think that I didn't try.
Batman: I know you did.

og svo

Batman: You killed my parents.
The Joker: What? What? What are you talking about?
Batman: I made you, you made me first.
The Joker: Hey, bat-brain, I mean, I was a kid when I killed your parents. I mean, I say "I made you" you gotta say "you made me." I mean, how childish can you get?

En þetta er að mínu mati mynd sem allir ættu að sjá fyrr eða síðar á ævinni og ef ekki einu sinni þá oftar. Hún fær 7,6 á IMDB.com sem má teljast gott. Þeir sem hafa ekki séð hana farið út á næstu leigu og leigði þessa frábæru mynd.

Hér er trailerinn:

Batman Returns (1992)




Eftir að hafa séð fyrstu Batman myndina ákvað ég að sjá mynd númer tvö líka en hún er Batman Returns. Mér finnst þessi mynd vera einhvernvegin sú mynd sem minnst bar á hjá mér. Þetta er alla veganna sú mynd sem ég hef séð sjaldnast fyrir utan Batman and Robin sem er niðurlæging í kvikmyndaformi. Michael Keaton fer aftur með hlutverk Batmans. Það eru fleiri frábærir leikarar í þessari mynd eins og Danny DeVito, Michelle Pfeiffer og Christopher Walken. Tim Burton leikstýrir þessari mynd en hann leikstýrði einnig fyrri Batman myndinni. Hann heldur sinni sérstöðu sem leikstjóri í þessari mynd eins og öllum þeim myndum sem hann gerir.

Batman Returns er um veru Batmans (Michael Keaton) í Gotham. Ólíkt fyrri myndinni þá er Batman orðin opinber verndari Gotham og er komin með kalltæki eða Batman ljósið. Það eru tveir vondir kallar í þessari Batman mynd og eru það Penguin (Danny DeVito) og Catwoman (Michelle Pfeiffer). Eftir þessa mynd hafa alltaf verið tveir vondir kallar. Í þessari mynd er það hin afskræmdi Oswald Cobblepot einnig þekktur sem Penguin sem herjar á íbúa Gotham. Hann er sannfærður af Max Shreck (Christopher Walken) að bjóða sig fram til borgarastjóra það gengur ágætlega þangað til að Bruce nær að eyðileggja það fyrir honum. Einnig er það hin illræmda Catwoman eða Selina Kyle sem ógnar íbúum. Ásinn eigin hátt er hún ekkert það vond hún hjálpar sumum en henni er nokkuð sama um fólkið í kringum sig. Það verður svolítið skemmtilegur ástar leikur í þessari mynd. En Bruce heillast af Selina og hún að honum svo er einhverjir straumar á milli Batmans og Catwoman. Þetta spilar sig svolítið skemmtilega í myndinni.

Þessi mynd er nokkuð góð hún er að mínu mati ekki eins góð og fyrri Batman myndin en þar er þetta allt svo nýtt og frábært. Í þessari mynd er ekki allt eins ferskt. Ég verð nú samt að segja að túlkun Michelle Pfeiffer á Catwoman er alveg frábær. Ég er ekki búin að sjá Catwoman myndina með Halle Berry en ég hef voðalegan lítinn áhuga á að sjá hana. Nema kannski bara til þess að sjá Halle Berry klædda í þröngt leður. Það er bara eitthvað við svona spin of sem mér finnst ekki að ætti að gera. Það er of mörgu breytt og gert að einhverri vitleysu. En nóg um það. Við megum ekki gleyma Danny DeVito sem Penguin en ég held að það séu ekki margir leikarar að honum frátöldum sem hefðu geta gert þetta jafn vel. Hvernig hann fær þennan litla feita afskræmda mann að koma til lífsins það er alveg kostulegt.

Í öllum Batman myndum síðari ára hafa alltaf verið afbragðs leikarar. Mér finnst svolítið fyndið að George Clooney hafi leikið Batman í þeirri hörmung sem Batman and Robin var. Samt sem áður var góður leikara hópur í þeirri mynd Uma Thurman og Arnold Schwarzenegger. Þetta var bara lélegt handrit og ég hef ekki getað horft á hana síðan ég var tíu ára en hún er bara of kjánaleg. Enn menn á borð við Jim carrey og Tommy Lee Jones hafa einnig leikið í þessum myndum.

Núna verð ég samt að segja að nýju Batman myndirnar með Christian Bale eru klárlega miklu betri en hinar myndirnar. Þær gefa Batman einhvern veginn þann möguleika að vera í raun til en í Tim Burton myndunum var þetta flest allt of ótrúlegt til að geta gerst en það er einmitt Tim Burton þekktur fyrir að gera. Mér finnst þessar nýju samt gefa Batman nýtt líf. Líf sem maður vissi ekki að hann átti í sér. Bestu tveir Batmanarnir eru því klárlega Christian Bale og Michael Keaton

En Batman Returns er hörku mynd ekki sú besta í seríunni en líka langt frá því að vera sú versta. Ef þú hefur gaman af Batman þá er þessi mynd skildu sýn. Hún fær 6,9 á IMDB.com sem er ekki svo slæmt en ekkert frammúrskarandi.

Hér er trailerinn fyrir hana:

mánudagur, 30. mars 2009

Gran Torino


Ég sá Clint Eastwood slagarann Gran Torino um daginn. Fyrir utan Clint er ekki mikið um fræga leikara í þessari mynd það eru nokkrir þekktir en aðallega eru þetta nokkuð óþekktir leikarar. Clint leikstýrði myndinni líka en hann hefur leikstýrt myndum á borð við Changeling (2008), Million Dollar Baby (2004) og Mystic River (2003). Svo það þykir óhætt að segja að hann sé bara nokkuð góður leikstjóri. Þetta er síðasta myndin sem Clint ætlar að leika í en núna ætlar hann að einbeita sér að því að vera leikstjóri. Ef eitthvað er að dæma hans fyrri verk þá á hann sér góðan frama á þeirri hillu.

Gran Torino er mynd um fyrrum hermann, Walt Kowalski (Clint Eastwood), sem er ný búinn að missa konuna sína. Það flytja Asíubúar í húsið við hlið hans og hann er greinilega mikill rasisti. Hann hefur ekki mikla virðingu fyrir prestinum í hverfis kirkjunni, Father Janovich (Christopher Carley), en hann er mjög ungur maður. Walt Þolir ekki nýju nágrannana sína og skilur ekki af hverju þau hafi þurft að flytja inn í þetta hús. Börn Walts þola hann ekki finnst hann vera of mikið af gamla skólanum. Walt hrekur eitt sinn burt gengi sem er að níðst á dreng nýju nágrananna. Hann ætlar sér ekkert að hjálpa þeim þeir fóru bara inná lóðina hans. Eftir þetta myndast hægt og rólega vinskapur milli Walt og Asíubúanna og fer honum að þykja vænt um þessa nýju vini. Walt á nefnilega ekki mikið af vinum hann situr allan daginn á veröndinni fyrir utan húsið sitt og drekkur bjór. Hann hættir samt aldrei að vera rasisti þótt hann sé orðin vinur þessara Asíubúa.


Þessi mynd var mjög góð og lék Clint einstaklega vel í henni. Hann var gjörsamlega fullkominn fyrir þetta hlutverk. Að vera gamall pirraður kall sem vil bara vera látinn í friði frá um heiminum og njóta þessara síðustu æviára sinna í friði. Það var mikið blótað í þessari mynd og held ég að ég hafi lært alveg helling af nýjum orðum yfir Asíubúa og svertingja á því að horfa á hana. Ekki það að ég muni einhvern tíman nota þessi orð þá var þetta samt hálf skemmtilegur lærdómur.

Þessi mynd er ein af betri verkum Clint og hún hélt manni spenntum og við efnið allan tíman. Clint er nokkuð góður í því að halda manni við efnið í þeim myndum sem hann leikstýrir. Það er einhvernvegin engin dauður punktur í myndum hans. Maður fer ekki að líta á klukkuna og spyrja sig hvað gæti verið mikið eftir af myndinni. Nei, hann hefur einhvern einstakan hæfileika að halda manni við efnið með góðum sögum. Gran torino var það eingin undantekning. Þó að yfir heildina litið hafi ekki alltaf verið allt á fullu þá gat maður ekki beðið eftir að sjá hvað Walt gerð næst. Hann var alveg frábært karakter sem Clint fullkomnaði algerlega með sínum djúpa róm og einhvern veiginn illkvittnislegu augum. Maður sá bara að það átti ekki að abbast uppá þennan náunga. Það var alveg frábært hvernig hann tók Thao (Bee Vang) og hans fjölskildu undir sinn verndar væng og gerði Thao að manni.

Myndin dregur nafn sitt af bíl sem kemur mikið fyrir í myndinni en það er einmitt Ford Gran Torino módel 1972. En Walt hafði einmitt sett stýrið í þennan bíl. Hann vann nefnilega hjá Ford í Fjölda ára. Thao reynir að stela bílnum í upphafi myndarinnar en Walt fyrir gefur honum það og í lokinn erfir hann honum bílinn.

Ég man ekkert sérstaklega eftir myndatökunni en það þýðir bara að hún hafi verið vel heppnuð. Ég hef alla veganna ekkert út á hana að setja.

Þessi mynd var frábær og mæli ég með henni eindregið fyrir alla. Hún fær 8,4 á IMDB.com og er í 78 sæti yfir 250 bestu myndirnar þar. Þeir sem hafa ekki séð aðrar myndir eftir þennan snilling ættu að gera það sem fyrst því hann er snillingur og kann að leikstýra. Clint er að vinn að einni mynd núna en það er saga Nelson Mandela og mun Morgan Freeman fara með hlutverk þess snillings. Hún ber heitið The Human Factor og á alveg örugglega eftir að vera mjög góð. Eða það vona ég alla veganna.

Hér er Trailerinn fyrir Gran Torino: